addasteina.annáll.is

AnnállHeimiliStefnumótunTrúmálÞjóðlíf

« Jólaamstur · Heim · Ofbeldi fyrir fullorðna »

Nýjar bækur eftir Iðunni Steinsdóttur

Adda Steina @ 23.22 17/12/04

Um daginn uppfærði ég heimasíðu móður minnar, Iðunnar Steinsdóttur. Hún er mikilvirkur og góður rithöfundur og í ár koma frá henni tvær bækur og ein hljóðbók.

Galdur vísdómsbókarinnar heitir önnur bókin og er fyrir stálpaða krakka, ca. 10 – 13 ára. Hún hefur fengið fantagóða dóma, og setti ég vísanir á þá inn á heimasíðu höfundar. Þetta er bók sem óhætt er að mæla með. Hún sækir hugmyndir í fornaldarsögur Norðurlanda og er bæði spennandi og skemmtileg.

Þá er komin út ný bók um Snuðru og Tuðru, þar sem þær taka til. Ég tel þessa bók mikilvæga viðbót í bókasafn yngri barna sem jafnvel gætu verið að læra um jólahreingerningu þessa dagana og glaðst við þann góða samanburð sem öll börn fá hjá Snuðru og Tuðru.

Hljóðbókin er safn af sögum um Snuðru og Tuðru sem Dimma gefur út. Þar eru meðal annar sögur sem ekki hafa komið út. Fyrir netvænt fólk er hægt að panta beint á netinu frá Dimmu.

Móðir mín gefur út hjá forlaginu Salka – og það er hægt að versla á vef forlagsins líka. Lítil forlög eiga oft erfiðara uppdráttar í hörðum auglýsingaheimi aðventunnar þar sem sami aðilinn gefur út flestallar bækurnar og á stærstu búðirnar. Þess vegna er hætta á að bækur þeirra sjáist síður í ölduróti jólabókaflóðsins og rétt að leita allra leiða til að minna á þær.

url: http://addasteina.annall.is/2004-12-17/23.22.51/

© addasteina.annáll.is · Færslur · Ummæli