addasteina.annáll.is

AnnállHeimiliStefnumótunTrúmálÞjóðlíf

« Nýjar bækur eftir Iðunni Steinsdóttur · Heim · Hjálparstarf »

Ofbeldi fyrir fullorðna

Adda Steina @ 21.51 21/12/04

Það er full ástæða til að vekja athygli á fréttum Stöðvar 2 um gróft ofbeldi í tölvuleikjum sem jafnvel eru gefnir börnum í jólagjöf. Sonur minn, 9 ára, kom heim úr bekkjarafmæli um daginn og hafði fengið pizzu og spilað Grand Theft Auto með bekkjarfélögunum.

Hörð viðbrögð foreldranna við þessum upplýsingum settu snáðann í varnarstöðu og hann taldi upp alla bekkjarfélagana sem áttu þennan leik, til staðfestingar því að þetta væri víst í lagi – “allir” ættu hann.

Árni Snævarr gerði eftirminnilega frétt um Grand Theft Auto fyrir einum eða tveimur árum. Ég ætla ekki að rekja þann viðbjóð sem finnst í leiknum en bendi á að hlutskipti spilarans er að vera sá sem brýtur af sér og hann á ýmsa möguleika á að ganga langt í skepnuskap.

Eftir téð afmæli fór ég að fylgjast með þeim tölvuleikjum sem komu inn á heimilið með félögum drengjanna. Þar var það regla frekar en undantekning að þeir væru bannaðir amk innan 15 ára. Í gærkvöldi var svo frétt á Stöð 2 um nýja, ennþá ofbeldisfyllri tölvuleiki, einkum leikinn Manhunt og foreldrar hvattir til að gæta að aldursmerkingum á tölvuleikjum sem keyptir væru fyrir börn.

Í kvöld var sagt frá því á Stöð 2 að leikurinn Manhunt hefði verið tekinn úr fjölda verslana í Bretlandi í fyrra eftir að gróft morð á unglingi var talið framið af öðrum unglingi undir áhrifum frá þessum leik.

Margir foreldrar hafa tekið eftir því hvað börn verða pirruð og uppstökk af of miklum tölvuleikjum. Það er full ástæða til að gæta þess að þau verði ekki ofbeldismenn líka.

url: http://addasteina.annall.is/2004-12-21/21.51.04/

Athugasemdir

Fjöldi 3, nýjasta neðst

Carlos Ferrer @ 21/12/2004 23.14

Quentin Tarrantino á að hafa sagt að mikið hasarmyndagláp geri fólk ekki að glæpamönnum en geti gert það að kvikmyndagerðarfólki sem gerir hasarmyndir. Veit ekki hvort það er satt en vera má að mikill tölvuleikur sé til vitnis um mikinn tíma sem börn geti átt heima án eftirlits. Að þessu sögðu játa ég að ég sakna bernskunnar í Háaleitinu þegar Síðumúlinn var að byggjast. Það voru ófáar stundir sem fóru þar í leik með spýtur, pappa og eldfæri … frelsið var yndislegt.

Adda Steina @ 22/12/2004 11.28

Ég er ekki viss um að hið sama gildi um myndir og tölvuleiki. Í þessum tölvuleikjum fá menn bónusstig fyrir ýmis óhæfuverk sem þeir verða þá að fremja sjálfir. Svo er allt í tenglsum við þeta, hljóðið (tónlistin), hraðinn og spennan, sem veldur því að sá sem lifir sig inn í þetta hreyfingarlaus í nokkurn tíma byggir upp innri spennu sem brýst fram í reiði eða pirringi eftir á. Þetta sé ég oft hjá börnum.

Árni Svanur @ 22/12/2004 20.16

Það er gott að vekja athygli á þessu máli því hvort sem hægt er að sýna fram á beint orsakasamband á milli tölvuleika og ofbeldisverka eða ekki þá finnst mér það ljóst að í sumum af þessum leikjum er gengið svo langt að það nær ekki nokkurri átt. Og umræðan um efnið getur orðið til þess að auka meðvitund foreldra og annarra um það hvað börnin þeirra eru (kannski) að leika.

Hitt er svo annað mál að það væri gagnlegt að sjá einhverjar empirískar rannsóknir varðandi þetta. Slíkt hlýtur að vera til enda hefur verið rætt um þetta mál mjög lengi. Mér finnst eins og ég hafi séð grein í Wired fyrir nokkru síðan sem tengdist þessu, en þarf að kanna það betur.

Lokað er fyrir athugasemdir.

© addasteina.annáll.is · Færslur · Ummæli