addasteina.annáll.is

AnnállHeimiliStefnumótunTrúmálÞjóðlíf

« Kyndilmessa · Heim · Ungur bloggari »

Pú, pú og pí, pí

Adda Steina @ 22.22 5/5/05

Þegar eldri sonur minn var fimm ára og sótti skóla í Almaty í Kazakstan, skiptum við vinkonurnar með okkur að sækja hann og þrjár norskar stúlkur í skólann, viku hver í senn. Nokkrar vikur var hópurinn, 3 – 5 ára heltekinn af kúk og piss bröndurum.

Þau töluðu ensku saman og brandararnir hljóðuðu yfirleitt á þennan hátt: Pooh, pooh, pee, pee, stinking toilet.

Svo hlógu þau gassalega.

Breytti engu þó að þau væru almennt á því stigi að geta ekki skeint sig sjálf og sætu iðulega fyrir opnum klósettdyrunum og kölluðu: mamma, skeina!

Eftir nokkrar vikur af kúkabröndurum gáfumst við mæðurnar upp og bönnuðum þá í bílnum. Síðan hefur lítið farið fyrir svona bröndurum í minni fjölskyldu. Þar til núna að við gerðumst áskrifendur að Stöð 2 og „strákarnir“ urðu meðal uppáhaldsefni strákanna minna, sem eru 10 og 13 ára.

Þegar fullorðnir karlmenn girða niðrum sig, míga á sig, rökræða tippastærð í sinnepsbaði og skríða upp í hjá öðrum mönnum til að athuga hvort þeir séu hommar, þá spyr maður sig hvað sé að íslenskri dagskrárgerð.

„Pooh, pooh, pee, pee, stinking toilet.“

Ég heyri í kringum mig að lítil börn í skóla girða niðrum sig og reka rassinn upp að gluggum til að herma eftir strákunum og er það meðal minna alvarlegra hluta sem þau leika eftir. Verra þegar þau reyna sig við áhættuatriðin og hef ég eftir hjúkrunarfræðingi að af þeim hafi hlotist slys. Þakka fyrir að mínir eru orðnir nógu stórir til að skilja aðvörunina: Ekki leika þetta eftir.

Hef þó heyrt að sumir í 10 ára bekk séu að prófa áhættuatriðin.

Ég sé að sleikjó er meðal þess sem auglýst er í kringum þáttinn „Strákarnir“. Það er skiljanlegt því að áhrofendur eru margir á leikskólaaldri eða fyrstu árum grunnskóla. Þetta er sumsé barnaefni stöðvar tvö enda á þeim tíma sem fjölskyldan er að ljúka mat og smá andrými gefst fyrir svefntímann.

Mér finnst þessi þáttur ekki bara leiðinlegur, mér finnst hann léleg dagskrárgerð og á kolröngum tíma. Þetta er tími sem á að nýtast fjölskyldunni en enginn fullorðinn nennir til lengdar að horfa á hálffertuga karlmenn tala um tippið á sér og girða niðrum sig. Þau sem horfa eru svo ung að þau hlæja að kúk-og-piss brandararnir eru rétti áhorfendahópurinn – og þau sem borða sleikjó.

Afleiðingin er sú að ég horfi aldrei á Stöð 2 vegna þess að ég færi mig yfir á aðrar rásir strax, aðallega Rúv og Skjá 1 – og skipti ekki til baka. Verði þátturinn ekki færður mun ég leggja til að fjölskyldan færi sig alfarið á aðrar rásir. Og noti það umtalsverða fé sem sparast í eitthvað sem ekki er staðnað á anal stigi.

url: http://addasteina.annall.is/2005-05-05/22.22.18/

© addasteina.annáll.is · Færslur · Ummæli