addasteina.annáll.is

AnnállHeimiliStefnumótunTrúmálÞjóðlíf

« Nóg gistirými í Betlehem · Heim · Blogg fjölskyldan »

Að byggja upp framtíðarsamfélag með innflytjendum

Adda Steina @ 22.02 9/11/06

Toshiki Toma er með prýðisgrein á bls. 16 í Blaðinu í dag, og setur þar umræðuna um innflytjendamál í ágætt samhengi.

Hann segir:

að mínu mati er aðalspurningin um mál innflytjenda tvenns konar: Í fyrsta lagi hvort fjölgun erlendra verkamanna sé of mikil og of hröð. Í öðru lagi hvað þjóðin á að gera til þess að byggja upp framtíðarsamfélag með innflytjendum.

Það vantar ennþá fólk á vinnumarkaðinn. Sumir fara líklega ef harðnar á dalnum. En einhverjir verða eftir. Og þeir sem setjast að þurfa að aðlagast til að líða vel.

Ég hef oft dvalið um einhvern tíma erlendis, unnið fyrir mér og reynt að læra landsins mál. Tímabilið hefur varað frá nokkrum mánuðum upp í tvö ár. Það hefur gengið misvel að læra málið.

Þýskan var auðveldust, enda hafði ég grunn í henni og var sautján ára.

Ungverskan náði aldrei hærra stigi en að telja og kunna nöfn á algengustu matvörum. Hún náði samt að ýta burt þeirri litlu nýhebresku sem ég hafði lært.

Franskan var skárri, ég hafði einhvern grunn í latínu og tíma til að sækja námskeið.

Grískunni náði ég líka takmarkað og tímabundið með námi, en varð aldrei fær og nú get ég ekki sagt einföldustu orð.

Rugla henni við rússnesku, sem ég kunni alltaf takmarkað þó að ég strefaði við að hnýta saman ambögur og málfræðivillur. Það var að duga eða drepast, þar sem enginn skildi ensku eða þýsku, og Rússar og Kasakkar í kringum mig voru afar þolinmóðir við málhalta útlendinginn.

Þegar kom að bahasa gafst ég upp, sem er í raun synd því að það er mjög einfalt mál og lítil málfræði, ólíkt rússnesku og grísku – eða íslensku. En þá var ég líka komin til lands sem var í raun margtyngt, og hægt að fylgjast með fréttum á ensku og kynnast mannlífinu vel, án þess að læra bahasa. Eftir allt þetta bras, námskeið og tíma er þýskan enn það eina sem ég er þokkalega spjallfær í.

Ég hef fulla samúð með útlendingum sem koma hingað til að vinna og finnst erfitt að fóta sig í íslensku. Tungumálanám liggur misvel fyrir fólki. 20 ár eru eðlilegur tími fyrir fullorðna manneskju til að ná vel nýju máli. Ekki tvö eða þrjú. Alls ekki nokkrir mánuðir. Síst af öllu ef menn eiga ekki möguleika á að sækja námskeið og tala við Íslendinga. Og til að tala við Íslendinga þurfa menn helst að vera giftir inn í íslenska fjölskyldu eða vera eini útlendingurinn á vinnustaðnum.

Til þess að byggja framtíðarsamfélag með innflytjendum þurfa þeir að aðlagast okkur og við þeim. Við verðum auðvitað að efla kennslu en líka koma því svo fyrir að fólk hafi möguleika á upplýsingaöflun þrátt fyrir takmarkaða íslenskukunnáttu.

Sérstaklega er mikilvægt að efla stuðning við fjölskyldur þar sem ekki er töluð íslenska svo að börnin nái að fóta sig. Leggja allt kapp á að börnin mennti sig til starfa. Og vera opin fyrir því að einhverjir séu lengi að finna réttu orðin á íslensku og finni þau jafnvel ekki.

url: http://addasteina.annall.is/2006-11-09/22.02.02/

© addasteina.annáll.is · Færslur · Ummæli